-
Þú átt rétt á upplýsingum á máli sem þú skilur!
Orðabanki
Dæmi um orð
#MeToo er baráttu-hreyfing kvenna um allan heim.
Þar standa konur (og líka trans konur) saman og segja frá ofbeldi og áreiti sem þær hafa orðið fyrir.
Þessi baráttu-hreyfing er óformleg, þetta er ekki félag eða skipulögð starfsemi.
Hún byrjaði þegar konur fóru að segja frá ofbeldinu og áreitinu sem þær höfðu orðið fyrir.
Me too þýðir ég líka og fékk baráttan það nafn vegna þess hve margar konur hafa lent í ofbeldi og áreitni.
Baráttan átti sér stað á netinu að miklu leyti og þess vegna er svona # merki fyrir framan me too. Þetta er hashtag eins og það heitir á ensku, eða myllumerki á íslensku. Það er til þess að allir geti merkt sögurnar sínar fyrir aðra til að lesa.
Á Íslandi byrjaði #metoo hreyfingin þegar konur í stjórnmálum sögðu frá ofbeldinu og áreitinu sem þær höfðu upplifað. Sumar gerðu það nafnlaust, það þýðir að enginn vissi hver átti söguna.
#Metoo hreyfingin hefur haft mikil áhrif á samfélög í heiminum.
Vinningur er eins og verðlaun sem við fáum
fyrir að taka þátt í leik.
Við getum til dæmis fengið vinning
þegar við kaupum happdrættis-miða.
Þá eigum við sérstakt númer á happdrættis-miðanum
og ef okkar númer er dregið
þá fáum við vinning.
Vinningar geta verið alls konar.
Vinningar geta verið bækur og föt.
Líka matur á veitingastað eða miði á skemmtilega bíómynd.
Vladímír Pútín er forseti í Rússlandi.
Hann er oftast kallaður Pútín, þegar við tölum um hann og þegar við hlustum á fréttir.
Pútín er fæddur árið 1952.
Hann hefur verið bæði forsætis-ráðherra og forseti í Rússlandi í mörg ár.
Ofbeldi er þegar einhver meiðir okkur eða lætur okkur líða illa.
Allt ofbeldi er bannað.
Það má ekki meiða annað fólk og enginn má meiða okkur.
Líkamlegt ofbeldi er þegar einhver meiðir líkamann okkar.
Kynferðislegt ofbeldi er þegar einhver neyðir okkur
til að gera eitthvað kynferðislegt.
Til dæmis kyssir okkur eða snertir án þess að hafa leyfi frá okkur.
Andlegt ofbeldi er þegar einhver lætur okkur líða illa,
lætur okkur vera hrædd eða lætur okkur skammast okkar.
Ef þú heldur að þú verðir fyrir ofbeldi
skaltu tala við einhvern sem þú treystir.
Það eru til samtök sem hjálpa þeim sem verða fyrir ofbeldi.
Til dæmis Stígamót, Bjarkarhlíð og Kvenna-athvarfið.
Ef við erum hrædd eða í hættu skulum við hringja í neyðarlínuna í síma 112.