Fara í efni
Sýndarveruleikasetur - Þroskahjálp
Sýndarveruleiki til að
þjálfa fólk með þroskahömlun
í athöfnum til sjálfstæðara lífs

Undanfarna mánuði hafa Landssamtökin Þroskahjálp
unnið að spennandi verkefni í samstarfi við Piotr Loj,
frumkvöðul á sviði sýndarveruleika
og eiganda Virtual Dream Foundation.

Að búa til sýndarveruleika til að þjálfa fólk með þroskahömlun
í athöfnum til sjálfstæðara lífs hefur aldrei verið gert áður á Íslandi
og er því um spennandi tilraunaverkefni að ræða.

Við vonumst til að það muni hjálpa fólki með þroskahömlun
til þess að takast á við nýjar og krefjandi aðstæður til þess
að auka sjálfstæði og þátttöku í samfélagi.

Í gegnum sýndarveruleika er hægt að æfa sig
eins oft og þörf krefur við öruggar aðstæður
þangað til fólk treystir sér til þess að stíga skrefið
í raunveruleikanum.

Umhverfið er mjög raunverulegt og við leggjum
áherslu á að hafa þá sýndarveruleika sem við vinnum
eins nálægt veruleikanum og mögulegt er.

Gerðir voru fjórir sýndarveruleikar
sem veita þjálfun í að:

1. Mæta á kjörstað og kjósa
Tekið upp í kjördeild í Ráðhúsi Reykjavíkur
daginn fyrir alþingiskosningar.

Hér er hægt að æfa allt ferlið frá því að mæta á kjörstað
þar til atkvæði hefur verið skilað í kjörkassann.


2. Taka strætó
Tekið upp í samvinnu við Strætó.

Nær yfir ferlið frá því að bíða á stoppistöð,
fara um borð í réttan vagn, hegðun í vagninum á ferð,
hvenær og hvernig við látum vita að við viljum fara út
og hvernig er best að bera sig að þegar út úr vagninum er komið.


3. Að fara í sumarbúðir
Tekið upp í samstarfi við sumarbúðirnar í Reykjadal.

Börn sem koma í Reykjadal eru oft mjög kvíðin
og sum þora alls ekki að fara.
Þegar þau mæta reynist dvölin þó oft mjög valdeflandi.

Þessi veruleiki er tekinn upp í samstarfi við Reykjadal
og sýnir móttöku við komu í sumarbúðirnar í Reykjadal,
aðstæður og umhverfi.


4. Að leita sér aðstoðar eftir ofbeldi
Tekið upp í samstarfi við Bjarkarhlíð.

Því miður sýna allar rannsóknir að fatlað fólk er allt að fimm sinnum
líklegra til þess að verða fyrir ofbeldi.
En fatlað fólk er ólíklegra en aðrir þolendur til að fá aðstoð
til að vinna úr því.

Þessi veruleiki sýnir hvernig það er að koma í Bjarkarhlíð,
hvernig er tekið á móti fólki, hvaða aðstoð er í boði fyrir þolendur.

Með þjálfun í sýndarveruleika verður umhverfi Bjarkarhlíðar,
og jafnvel einstakir starfsmenn, aðeins kunnuglegra.


Samstarfsaðilar í verkefninu eru Fjölmennt og Reykjavíkurborg
sem munu aðstoða einstaklinga sem vilja nýta sér sýndarveruleikann
til þjálfunar.

Verkefnið er styrkt af Félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu, og Elko,
sem gaf sjö sýndarveruleikagleraugu sem verða notuð til þjálfunar.

Merki Þroskahjálpar og félags- og vinnumarkaðsáðuneytis