Fara í efni
Malawi - Þroskahjálp og FEDOMA

Samstarfsverkefni Þroskahjálpar og FEDOMA
(Federation of Disability Organization in Malawi)
til að auka menntun og samfélagsþáttöku
fatlaðra barna í Mangochi-héraði í Malawi

Landssamtökin Þroskahjálp hafa hlotið styrk
frá utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra
til þess að styðja við menntun og samfélagsþátttöku
fatlaðra barna í Mangochi-héraði í Malawi.

Verkefnið er unnið í samvinnu við FEDOMA,
samtök fatlaðs fólks í Malawi.

Hluti verkefnisins er stuðningur við starfsemi þeirra á svæðinu.

FEDOMA
Federation of Disability Organisations
in Malawi

FEDOMA eru regnhlífarsamtök fatlaðs fólks í Malawi
– stýrt og stjórnað af fötluðu fólki.
Samtökin vinna með stjórnvöldum í Malawi
að því að móta og innleiða stefnur um réttindi fatlaðs fólks.


Samtökin leggja mikla áhersla á fötluð börn
og snemmtæka íhlutun með fræðslu og vitundarvakningu.
Samtökin styðja mæður til að veita
fötluðum börnum sínum umönnun og þjálfun.

Fatlað fólk í Malawi býr við
einhverjar erfiðustu aðstæður
sem hugsast getur.

Vegna þeirra áhrifa sem COVID-19 hefur haft
og mun hafa á efnahag þjóða má telja víst
að staða fatlaðs fólks verði enn erfiðari á næstu árum.

Aðstæður í Malawi
Meira en tveir þriðju hlutar þjóðarinnar
býr við örbirgð (extreme poverty).


Aðeins 8% barna á aldrinum 6-23 mánaða
eru á viðunandi mataræði
sem stuðlar að eðlilegum vexti og þroska.



Í Malawi er hlutfall fatlaðs fólks hærra en gengur og gerist
vegna vannæringar og erfiðra aðstæðna við meðgöngu og fæðingu.


37% barna í Malawi búa við vaxtarskerðingu
(eru of lágvaxin miðað við aldur).




Þetta eru áherslumál FEDOMA samtakanna.
Þau vinna að því að skapa samfélag án aðgreiningar.

Markmiðið með samstarfi
Þroskahjálpar og FEDOMA:


Auka þátttöku fatlaðra barna
í skólastarfi og samfélagi
Stuðla að vitundarvakningu
um réttindi fatlaðs fólks
Efla almenna þekkingu
á málefnum fatlaðs fólks
Tengja saman lykilaðila
sem bera ábyrgð á þjónustu
við fatlað fólk
Stuðla að samfélagi
án aðgreiningar
Skiptast á
dýrmætri reynslu,
innsýn og þekkingu
Dagbók Þroskahjálpar frá Malaví 2025



Þróun verkefnis Þroskahjálpar
og FEDOMA í Malaví

Samstarfsverkefni Þroskahjálpar og FEDOMA (Federation of Disability Organisations in Malawi) í Mangochi-héraði hófst með fyrstu könnunarheimsókn árið 2022.

Strax kom í ljós mikill vilji bæði stjórnvalda og heimamanna til að skapa betri aðstæður fyrir fötluð börn og fjölskyldur þeirra.

Með nýliðastyrk frá utanríkisráðuneytinu hófst verkefnið formlega, og frá árinu 2023 er það rekið á grundvelli fjögurra ára styrktarsamkomulags. Verkefnið hefur vaxið hratt og dafnað — og er orðið að mikilvægu grasrótarafli sem berst fyrir réttindum fatlaðs fólks í héraðinu.

Markmiðið er það sama í dag og í upphafi:

að auka aðgengi fatlaðra barna að námi og stuðla að betri lífsgæðum þeirra og samfélagsþátttöku.

Fjórar stoðir verkefnisins eru:


1. Inngildandi skólastarf.

12 grunnskólar og 12 leikskólar taka þátt í verkefninu.

Kennarar og leiðbeinendur fá fræðslu og þjálfun í að skapa skólaumhverfi þar sem öll börn fá tækifæri til náms.

Áherslan er ekki aðeins á að fötluð börn séu skráð í skóla, heldur að þau fái raunverulegan stuðning í náminu og að allir kennarar hafi verkfæri til að mæta þörfum þeirra.

Nú þegar hafa yfir 150 kennarar og 45 leiðbeinendur í leikskólum þjálfun í að taka á móti fötluðum nemendum í almennum bekkjum.

2. Stuðningur við mæður fatlaðra barna

12 grunnskólar og 12 leikskólar taka þátt í verkefninu.

Stofnaðir hafa verið 12 virkir stuðningshópar þar sem mæður deila reynslu, fá fræðslu um réttindi, styrkja hver aðra og vinna að vitundarvakningu í nærsamfélögum sínum.

Í lok árs 2023 fengu hóparnir þjálfun í að stofna og reka samfélagssjóði (Village Savings and Loans — VSL).

Þessir sjóðir hafa þegar borið ríkulegan ávöxt: Sjóðirnir hafa vaxið og dafnað þannig að nokkur tekjuskapandi verkefni eru komin af stað. Einnig hafa verið stofnaðir neyðarsjóðir fyrir mæður til að mæta óvæntum útgjöldum vegna barna sinna og sjóðir sem tryggja börnum næringu í skólanum.

3. Samráðsvettvangur um málefni fatlaðs fólks

FEDOMA og Þroskahjálp hafa stofnað formlegan samráðsvettvang í samvinnu við héraðsyfirvöld þar sem ólíkir aðilar koma saman: skólayfirvöld, félagsþjónusta, lögregla, hagsmunasamtök fatlaðs fólks og fulltrúar mæðrahópa.

Á fyrsta fundi hópsins með fulltrúum Þroskahjálpar árið 2024 lýstu allir aðilar ánægju með að nú væri til vettvangur þar sem hægt er að samræma aðgerðir, miðla þekkingu og vinna saman að því að efla réttindi fatlaðs fólks.

Út frá þessum hópi varð svo til nefnd um inngildandi skólastarf sem kemur saman við upphaf hverrar annar til að vinna að því að fötluð börn innritist í skóla of fái þann stuðning sem þau þurfa.

Með þessu samstarfi hafa börn sem áður voru ósýnileg yfirvöldum fengið stuðning til að hefja nám og sum hafa fengið úthlutað hjálpartækjum sem gerir þátttöku þeirra í skólalífinu og samfélaginu almennt mögulega.

4. Styrking FEDOMA

FEDOMA gegnir lykilhlutverki sem málsvari fatlaðs fólks í Malaví.

Þroskahjálp styður samtökin til að efla starfsemi sína, sinna hagsmunagæslu og eiga formlegt samráð við stjórnvöld og aðra hagsmunaaðila.

Samstarfið milli Þroskahjálpar og FEDOMA er traust og nýtur virðingar í samfélaginu.


Hvert stefnum við?
Fram til 2027 er stefnt að því að hlutfall fatlaðra barna sem sækja skóla í Mangochi hækki um 30%.

Verkefnið hefur þegar sýnt og sannað að með samvinnu, samstöðu og öflugu grasrótarstarfi er mögulegt að gera varanlegar breytingar.

Þó er ljóst að enn eru áskoranir fram undan. Mikil verðbólga í Malaví bitnar á fjölskyldum og skólum, og oft skortir bæði hjálpartæki og mat fyrir börnin.

Því er nauðsynlegt að halda áfram að styðja mæður, nærsamfélög, skólakerfið og hagsmunasamtök til að tryggja að árangurinn festist í sessi.

Verkefnið í Mangochi er lifandi dæmi um að þegar kraftar samfélagsins, fjölskyldna, skóla og hagsmunasamtaka eru sameinaðir — þá fá fötluð börn tækifæri til að vaxa og dafna.

2025
Nýir áfangar og tækifæri

Verkefnið í Mangochi hefur tekið stórt stökk fram á við á síðustu árum.

Árangurinn hefur verið sýnilegur bæði í skólunum og í samfélögunum sjálfum: fleiri fötluð börn hefja nám, mæðrahópar hafa orðið burðarásar í samfélaginu og samráðsvettvangur um málefni fatlaðs fólks hefur skapað breiða samstöðu um réttindi fatlaðs fólks um leið og tækifæri FEDOMA til samtals um stefnumótun í málefnum fatlaðs fólks í Malaví hafa aukist.


En með auknum árangri fylgja nýjar áskoranir — og ný tækifæri.

Í heimsókn Þroskahjálpar til Malaví í júní 2025 var ljóst að tími er kominn til að stíga næstu skref og styrkja verkefnið enn frekar.

Fyrirmyndarskóli í inngildandi skólastarfi


Einn áhugaverðasti möguleikinn er að gera Koche skóla, sem rekinn er í samstarfi við íslenska þróunarsamvinnu, að fyrirmyndarskóla í inngildandi menntun.

Skólinn hefur þegar sterkan grunn: reyndan sérkennara, stjórnendur sem hafa mikinn áhuga á verkefninu og mikinn metnað til að tryggja öllum börnum nám við hæfi.


Hugmyndin er að styrkja innviði skólans og búa til fyrirmyndaraðstæður til kennslu barna með fjölbreyttar þarfir.

Koche gæti þannig orðið leiðarljós fyrir aðra skóla í Mangochi og víðar, þar sem þróaðar væru aðferðir og úrræði sem síðan mætti yfirfæra á aðra skóla.

Hjálpartæki og snemmtæk íhlutun


Stærsta hindrunin í vegi enn frekari árangurs í Mangochi er skortur á hjálpar– og stoðtækjum sem gerir fötluðum börnum erfitt um vik með að stunda nám og taka þátt í samfélaginu á jafningjagrunni.


Þar kemur Feed the Children Malawi (FTCM) inn í myndina. Samtökin hafa mikla reynslu af greiningu, sjúkraþjálfun og smíði sérsniðinna hjálpartækja.

Þau hafa áður starfað í Mangochi með góðum árangri og nú bindum við vonir við að geta endurvakið verkefni þeirra í þeim þorpum sem eru hluti af verkefni Þroskahjálpar og FEDOMA.

Með því að tengja þetta saman — inngildandi menntun, efnahagslega styrkingu mæðra og samfélaga og stuðningsþjónustu FTCM — verður til heildræn nálgun á inngildingu fatlaðra barna:

börn fá greiningu og tæki, kennarar fá þjálfun og fræðslu, fjölskyldur fá í hendur verkfæri til að geta betur mætt þörfum fatlaðra barna sinna og samfélagsleg viðhorf til fötlunar breytast til hins betra.

Samlegð og framtíðarsýn


Við erum óendanlega þakklát starfsfólki Íslenska sendiráðsins í Lilongwe.

Það hefur frá upphafi sýnt verkefninu mikinn áhuga, veitt okkur stuðning og ráðgjöf og tekið þátt í samtölum um hvernig hægt sé að efla samlegðaráhrif.

Hugmyndir um fyrirmyndarskóla í Koche og endurvakningu FTCM skapa einstakt tækifæri til að byggja upp sjálfbært kerfi þar sem ráðgjöf og reynsla Þroskahjálpar og FEDOMA nýtist til að gera verkefni íslenskrar þróunarsamvinnu í Mangochi aðgengilegri fötluðu fólki.


Næstu skref


Það sem hófst sem stuðningur við nokkra leikskóla og mæður er nú orðið hreyfiafl sem nær til heilu þorpanna.

Stuðningshópar mæðra hafa þróast í öfluga grasrótarhreyfingu sem er að umbylta viðhorfum til fötlunar og auka þekkingu á réttindum og hæfileikum fatlaðs fólks.

Næsta markmið er að nýta þann grundvöll til að byggja upp fyrirmyndarúrræði sem geta orðið öðrum til eftirbreytni — í Malaví og víðar.

Með áframhaldandi samstöðu, stuðningi og hugrekki er ljóst að verkefnið getur haft enn víðtækari áhrif á líf fatlaðra barna og fjölskyldna þeirra.



Framtíðarsýn verkefnisins
Koche fyrirmyndarskóli

Styrkja innviði, umhverfi og kennslu
svo skólinn verði fyrirmynd að inngildandi skólastarfi.



Aðgengi að hjálpar– og stoðtækjum

Efna til samstarfs við Feed the Children Malawi
til að tryggja að börn fái sérsniðin
hjálpar– og stoðtæki og snemmtækan stuðning.



Samfélagsleg samlegð

Tengja saman inngildandi skólastarf, valdeflingu mæðra
og endurhæfingu/stuðningsþjónustu
svo öll börn fái tækifæri til að læra og vaxa.



Áhrif út fyrir Mangochi

Þróa og innleiða verklag sem hægt er að innleiða
á fleiri svæðum í Malaví og víðar.


Samfélagssjóðir sem breyta samfélögum

Starfsemi samfélagssjóðanna í Mangochi hafa þegar
skilað áþreifanlegum árangri.

Með því að safna litlum upphæðum vikulega
yfir langan tíma hafa hóparnir safnað nægu fjármagni
til að leigja jarðskika þar sem þeir rækta maís og grænmeti.



Fyrsta uppskeran er komin í hús, hluti hennar var nýttur
til að endurvekja skólamáltíðir í leikskólum á svæðinu,
sem höfðu lagst af vegna uppskerubresta og erfiðs efnahagsástands,
en skipta sköpum bæði fyrir börnin og fjölskyldur þeirra.

Hóparnir hafa einnig fengið þjálfun í smáframleiðslu,
svo sem brauðbakstri, samosa-gerð og sojamjólkurframleiðslu.



Úr þessu hafa sprottið lítil samrekin fyrirtæki
sem auka tekjur og sjálfstæði kvennanna.
Í þessu felst gríðarleg valdefling, ekki bara fyrir konurnar
heldur einnig það samfélag sem þær tilheyra.

Og því betur sem gengur, því hraðar breytast viðhorf
í garð fatlaðra barna.



Allt samfélagið nýtur góðs af starfsemi samfélagssjóðanna
— en það er vegna fötluðu barnanna sem þessi verkefni hófust.


Staða fatlaðs fólks í Malawi
Fatlað fólk er mjög líklegt til að búa við mismunun
og því miður oft útskúfun.



Mikill skortur er á hvers konar hjálpartækjum fyrir fatlað fólk.



Fötluð börn eru mun líklegri til þess að alast upp við fátækt
þar sem feður treysta sér ekki í uppeldishlutverkið
og yfirgefa fjölskylduna.





Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks
hefur verið fullgiltur en
talsvert vantar upp á eftirfylgni.




Verkefnisstjórn í Mangochi


Simon Munde
Framkvæmdastjóri FEDOMA

Anna Lára Steindal
Framkvæmdastjóri Þroskahjálpar

Albert Mwase
Svæðisstjóri FEDOMA í Mangochi

Charles Chikwewe
Sérkennari í Mangochi

Clara Ntopola
Sérfræðingur á menntaskrifstofu Mangochi


Samningur Sameinuðu þjóðanna
leggur okkur skyldur á herðar
um að verja réttindi fatlaðs fólks
allsstaðar


32. grein samningsins fjallar um þróunarsamvinnu
og alþjóðlegt samstarf:

1. Aðildarríkin viðurkenna mikilvægi alþjóðlegs samstarfs
og eflingu þess til stuðnings innlendum aðgerðum
til þess að tilgangur og markmið samnings þessa
megi verði að veruleika og munu gera viðeigandi
og árangursríkar ráðstafanir hvað það varðar milli og meðal ríkja
og, eftir því sem við á, í samvinnu við hlutaðeigandi alþjóða-
og svæðisstofnanir og borgaralegt samfélag,
einkum samtök fatlaðs fólks.



Slíkar ráðstafanir gætu meðal annars tekið til þess:

a) að tryggja að alþjóðlegt samstarf,
þar á meðal alþjóðlegar þróunaráætlanir,
nái til fatlaðs fólks og sé því aðgengilegt

b) að greiða fyrir og styðja uppbyggingu þekkingar og getu,
þar á meðal með því að skiptast á og miðla upplýsingum,
reynslu, þjálfunaráætlunum og bestu starfsvenjum […]



Svipmyndir af vettvangi

Samstarfsaðilar í Mangochi í réttindabaráttu
á alþjóðlegum degi fatlaðs fólks, 3. desember 2021.

Útskrift úr einum leikskólanna
sem íslenska þróunarsamvinnan styður.

Hreinlætisaðstaða fyrir fötluð börn.
Því miður stunda engin fötluð börn nám í skólanum.

Albert, svæðisstjóri FEDOMA
við leikskólann Dream Nursery,
sem tekur þátt í samstarfsverkefninu.

Þó aðgengi að byggingum sé víða gott
hefur fatlað fólk ekki aðgengi að hjálpartækjum.
Rampar standa því ónotaðir.

Fyrir ungar mæður fatlaðra barna í Mangochi
eru úrræði af skornum skammti.
Þær reiða sig á stuðning og reynslu
annarra mæðra fatlaðra barna,
auk leikskóla sem studdir eru af FEDOMA.

Mæður fatlaðra barna í Mangochi
tóku virkan þátt í þróun verkefnisins.

Börn í frímínútum.

Til að auðvelda samstarf við skóla í þorpum Mangochi
keypti Þroskahjálp mótorhjól fyrir starfsmann FEDOMA á svæðinu.
Simon Munde, framkvæmdastjóri FEDOMA,
afhenti starsfmanninum mótorhjólið.

Starfsmaður FEDOMA beitti sér fyrir því,
í samstarfi við héraðsyfirvöld í Mangochi,
að þessi blindi drengur fengi viðeigandi skólavist.

Stúlka sem fékk hjólastól í gegnum samstarf FEDOMA
og héraðsyfirvalda í Mangochi.
Alvarlegur skortur er á nauðsynlegum hjálpartækjum í Mangochi
sem hamlar skólasókn fatlaðra barna,
enda þarf oft að fara um langan veg í skólann.


1 2 3 4 5 6 7 8 9 10 11




Samráðsvettvangur fundar í Mangochi héraði







Fulltrúar úr stuðningshópum mæðra kynna samfélagssjóði







Fjölbreyttur nemendahópur í Koche skóla







Mæður sem taka þátt í verkefninu ásamt Victoriu Kingstone,
sem situr á Malavíska þinginu fyrir Mangochi







Ungur drengur fær þjálfun hjá Feed The Children Malawi




„Heimsmarkmiðin munu aldrei nást
nema með fullri þátttöku allra,
þar með talið fatlaðs fólks.

Við höfum ekki efni á að hunsa
eða jaðarsetja framlag
1,5 milljarða manna.“


António Guterres, aðalritari Sameinuðu þjóðanna

Heimsmarkmiðin og fatlað fólk

Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna
um sjálfbæra þróun voru samþykkt
af fulltrúum allra aðildarríkja
Sameinuðu þjóðanna í september árið 2015.

Öll eru markmiðin samtengd og sett fram með loforðinu
um að skilja engan eftir.

En því miður sýna rannsóknir að fatlað fólk gleymist oft
við innleiðingu markmiðanna sem tekur ekki mið af þörfum þess.



Fatlað fólk er langtum líklegra til að búa við fátækt
og skert tækifæri á öllum sviðum.

Þess vegna hefur fatlað fólk miklu minni möguleika en aðrir
til að vera þátttakendur í samfélagi, eins og það á rétt á
samkvæmt samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.


Þessu viljum við breyta.

Þess vegna starfa Þroskahjálp og FEDOMA saman,
þvert á lönd og álfur, að því að auka möguleika
og þátttöku fatlaðs fólks í þróunarstarfi
og innleiðingu heimsmarkmiðanna.

Merki Þroskahjálpar, Utanríkisráðuneytis, og FEDOMA

Fréttir frá Þroskahjálp

16.09.2025
Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um áform um breytingu á lögum nr. 85/2011 um nálgunarbann og brottvísun af heimili
12.09.2025
Ísland verður að tryggja mannréttindi fatlaðs fólks!
12.09.2025
Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um frumvarp til laga um breytingar á ýmsum lögum varðandi stafræna og rafræna málsmeðferð hjá sýslumönnum og dómstólu
4.09.2025
Áskorun um að fötluðu fólki sé hleypt inn í Háskóla Íslands á hverju ári
3.09.2025
Stuðningshópur fyrir pólska foreldra og aðstandendur / Grupa wsparcia dla polskoj?zycznych rodziców