Fara í efni

Forseta-kosningar 2024

Miðstöð um auðlesið mál hefur tekið saman upplýsingar um forseta-kosningarnar 1. júní 2024.

Nýr forseti Íslands verður kosinn 1. júní. 12 manns eru í framboði.
Sá eða sú sem fær flest atkvæði í kosningunum verður næsti forseti Íslands.
Forsetinn er valinn í 4 ár í einu.

Hér fyrir neðan eru helstu spurningarnar sem þú gætir haft.
Smelltu á spurningu til að lesa eða hlusta á svarið.
Það getur verið gott að lesa öll svörin.
Þú getur hlustað á öll svörin hér:

Á vefsíðunni kosning.is eru allar upplýsingar um forseta-kosningarnar.

Hér fyrir neðan er myndband sem sýnir hvernig maður kýs á kjördag.

 

Hvað gerir forseti Íslands? Og hverjir eru í framboði núna?


Þjóðhöfðingi

Forseti Íslands er þjóð-höfðingi Íslands og býr á Bessastöðum.
Forsetinn er sá sem veitir ríkis-stjórninni vald sitt.
Annars skiptir forseti sér lítið af stjórn-málum.
Það er stundum sagt að forsetinn sameini þjóðina.

Forsetinn og Alþingi

Forseti þarf að stað-festa öll lög sem Alþingi samþykkir.
Þjóðin kýs um lögin ef forsetinn stað-festir þau ekki.
Það hefur bara gerst 3 sinnum frá því Ísland varð sjálf-stætt árið 1944.
Þetta er stundum kallað neitunar-vald forsetans. Eða málskots-réttur.

Forseta-ávarp og fálka-orðan

Forseti hefur líka önnur hlutverk.
Forseti heldur ræðu á nýárs-dag og veitir verðlaun fyrir vel unnin störf. Til dæmis fálka-orðuna.
Til að fá fálka-orðuna þarf fólk að hafa gert eitthvað mikið og gott fyrir Ísland og þjóðina.

Forsetinn, kóngar og drottningar

Forsetinn tekur líka á móti þjóð-höfðingjum sem koma í heimsókn til Íslands.
Það geta verið forsetar eða forsætis-ráðherrar frá öðrum löndum.
Eða kóngar og drottningar sem dæmi.
Forseti getur líka farið í heimsóknir til útlanda og kynnt Ísland fyrir heiminum.

Nýr forseti

Forseti Íslands er Guðni Th. Jóhannesson. Hann var fyrst kosinn forseti árið 2016. Nú er hann að hætta og þjóðin fær að velja nýjan forseta með því að kjósa. 

Forseta-frambjóðendur

Í kosningunum er hægt að kjósa 12 manns sem hafa boðið sig fram. Þau eru kölluð forseta-frambjóðendur. Þau eru:
  • Arnar Þór Jónsson
  • Ásdís Rán Gunnarsdóttir
  • Ástþór Magnússon
  • Baldur Þórhallsson
  • Eiríkur Ingi Jóhannsson
  • Halla Hrund Logadóttir
  • Halla Tómasdóttir
  • Helga Þórisdóttir
  • Jón Gnarr
  • Katrín Jakobsdóttir
  • Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir
  • Viktor Traustason 

Má ég kjósa?


Þú mátt kjósa 1. júní ef:

  • þú ert íslenskur ríkis-borgari, og
  • þú átt lög-heimili á Íslandi, og
  • þú ert 18 ára eða eldri.

Þú mátt kjósa þó þú búir í útlöndum ef:

  • þú ert íslenskur ríkis-borgari, og

  • það eru minna en 16 ár síðan þú bjóst á Íslandi, og

  • þú ert 18 ára eða eldri.

Ef þú ert ekki viss hvort þú megir kjósa skaltu spyrja einhvern sem þekkir þig og þú treystir.
Kjör-skrá er listi yfir öll sem mega kjósa og hvar þau eiga að kjósa.
Þú getur flett þinni kenni-tölu upp á heimasíðu Þjóð-skrár.
Ef engar upplýsingar finnast þá ert þú ekki á kjör-skrá. Þá máttu ekki kjósa.

 Hvar og hvenær á ég að kjósa?


Forseta-kosningar eru 1. júní 2024.
Það hvar þú kýst fer eftir því hvar þú ert með lög-heimili.
Lög-heimili er oftast staðurinn þar sem við búum.
Til að vita hvar þú átt að kjósa skaltu fletta kennitölunni þinni upp á heimasíðu Þjóð-skrár.
Þú getur líka spurt einhvern sem þekkir þig og þú treystir.

Til þess að kjósa 1. júní þarftu að mæta á kjörstað.
Kjör-staðir eru oftast opnir frá klukkan 9 um morguninn til klukkan 10 um kvöldið.
Stundum eru kjör-staðir opnir á öðrum tímum.

Sveitar-félagið þitt auglýsir hvenær kjör-staðir eru opnir.
Þú finnur þessar upplýsingar á heimasíðu sveitar-félagsins þíns.
Sveitar-félagið þitt er bærinn sem þú býrð í, eins og til dæmis Reykjavík eða Akureyri.

 Hvernig kýs ég?


Á kjör-staðnum

Fyrst mætir þú á þinn kjör-stað.
Mörgum kjör-stöðum er skipt upp í nokkra hluta sem kallast kjör-deildir.
Þú ert í kjör-deildinni sem þín gata er í.
Á flestum kjör-stöðum er fólk sem getur hjálpað þér að finna þína kjör-deild.
Þú mátt taka einhvern með þér sem þú þekkir og þú treystir til að aðstoða þig.

Á kjör-deildinni

Þegar þú kemur inn á þína kjör-deild sérðu 3 manneskjur sitja við borð.
Það er kjör-stjórnin.
Þegar röðin er komin að þér þá segir þú þeim hvað þú heitir.
Þú þarft líka að sýna þeim skilríki. Til dæmis ökuskírteini eða vegabréf.

Kjör-stjórnin merkir við nafnið þitt á kjörskránni og lætur þig fá blað sem heitir kjör-seðill.
Kjör-seðilinn notar þú svo til að kjósa. Það gerir þú í kjör-klefanum.
Láttu vita ef þú þarft spjald með blindra-letri til að geta lesið kjör-seðilinn.

Í kjör-klefanum

Kjör-klefi er klefi þar sem maður kýs.
Þegar þú kemur inn í kjör-klefann skaltu draga tjaldið fyrir.
Það er svo enginn sjái þig kjósa. Eða hvað þú kýst.
Í kjör-klefanum er blýantur.
Þú notar blýantinn til að setja X í kassann fyrir framan þann eða þá sem þú ætlar að kjósa.
Það má ekki skrifa eða teikna neitt annað á kjör-seðilinn. Þá er kjör-seðillinn ógildur og atkvæðið þitt verður ekki talið.
Þegar þú hefur sett X við nafnið á þeim eða þeirri sem þú ætlar að kjósa brýtur þú kjör-seðilinn saman.
Svo ferðu út úr kjör-klefanum og tekur kjör-seðilinn með þér.

Við kjör-kassann

Fyrir utan kjör-klefann er kassi fyrir kjör-seðla.
Settu þinn kjör-seðil í kassann.
Þá hefur þú kosið í forseta-kosningunum árið 2024.
Það má enginn sjá hvernig þú kaust.

 Get ég fengið aðstoð við að kjósa?


Þú átt rétt á aðstoð við að kjósa.
Þú þarft ekki að segja hvers vegna þú vilt aðstoð.
Ef þú vilt að kjör-stjórnin aðstoði þig þarftu að biðja um aðstoð.
Þú getur líka haft eigin aðstoðar-manneskju með þér.

Aðstoðar-manneskjan fyllir þá út sérstakt eyðublað
Aðstoðar-manneskjan má ekki vera sjálf í framboði. Eða mjög skyld frambjóðanda.
Aðstoðar-manneskjan má ekki aðstoða fleiri en 3 í hverjum kosningum.

Sá eða sú sem aðstoðar þig við að kjósa má ekki segja neinum hvernig þú kaust.
Aðstoðar-manneskjan má heldur ekki segja frá hvað þið talið um í kjör-klefanum.

Ég kemst ekki 1. júní til að kjósa. Hvað á ég að gera?


Það er hægt að kjósa fyrir 1. júní á sérstökum stöðum.
Það kallast að kjósa utan kjör-fundar.
Það hentar mörgum að kjósa utan kjör-fundar. Til dæmis þeim sem eru upptekin eða vilja ekki bíða.
Ef það hentar þér ekki að kjósa 1. júní getur þú kosið utan kjör-fundar.

 Hvernig kýs ég utan kjör-fundar á Íslandi?


Ef þú kemst ekki á þinn kjör-stað 1. júní máttu kjósa utan kjör-fundar.
Það gerir þú hjá Sýslu-manni á þínu svæði.
Hér er listi yfir hvar og hvenær er hægt að kjósa hjá Sýslu-mönnum: https://island.is/s/syslumenn/kosning-utan-kjoerfundar

Á Höfuðborgar-svæðinu er kosið utan kjörf-undar á 1. hæð í Holtagörðum.
Þar er opið frá 10 á morgnana til 10 á kvöldin.
Það er mjög svipað að kjósa utan kjör-fundar og þegar maður kýs venjulega 1. Júní.
Skoðaðu svarið við spurningunni Hvernig kýs ég? til að sjá hvernig þú kýst.
Mundu að hafa með þér skilríki. Til dæmis ökuskírteini eða vegabréf.

 Hvernig kýs ég utan kjör-fundar í útlöndum?


Þú getur kosið á skrifstofu sendiráðs eða á skrifstofu ræðismanns.
Í sumum löndum eru íslensk sendiráð.
Þar er íslenskur sendiherra sem aðstoðar Íslendinga sem búa í landinu.

Í öðrum löndum eru ekki sendiráð.
Þá er sérstakur ræðismaður sem er ekki íslenskur.
Hann á að aðstoða Íslendinga sem búa í landinu.

Lista yfir íslensk sendiráð og ræðismenn má finna hér: https://www.stjornarradid.is/sendiskrifstofur/

Utanríkis-ráðuneytið skipuleggur kosninguna.
Utanríkis-ráðuneytið auglýsir hvar og hvenær er hægt að kjósa.
Til þess að vita hvar þú átt að kjósa skaltu hafa samband við sendiráð eða skrifstofu ræðismanns.

Til þess að kjósa þarftu að mæta á kjör-stað.
Starfsmaður hjá sendiráði eða ræðismanni tekur á móti þér og merkir við þig.
Þú þarft að sýna skilríki. Til dæmis ökuskírteini eða vegabréf.

Hvern á ég að kjósa?

Bara þú getur ákveðið hvern þú kýst.

Áður en þú kýst er gott að kynna sér frambjóðendur.
Átak er félag fólks með þroskahömlun.
Átak hefur tekið viðtöl við 7 frambjóðendur.
Ef þú hefur áhuga getur þú horft á viðtölin hér.
Það gæti hjálpað þér að taka ákvörðun um hvern þú kýst.

Arnar Þór Jónsson

Baldur Þórhallsson

Halla Hrund Logadóttir

Halla Tómasdóttir

Jón Gnarr

Katrín Jakobsdóttir

Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir